Suð í píanóum er eitthvert það mest óþolandi vandamál sem píanóstillari getur þurft að fást við.
Í grófum dráttum má flokka suð í tvennt
- Suð innan píanós
- Suð utan píanós
Suð innan píanós
Í píanóum eru ógurlega margir hlutir sem geta víbrað, suðað eða ískrað. Strengir geta suðað á þónokkrum stöðum.
Á skemmtistöðum er ekki óalgengt að finna uppþornað vodka í kók á bassastrengjum. Sýran í kókinu getur étið upp koparvafninginn í bassastrengjunum og koparinn víbrað utan á stálinu.
Stundum suðar í hljómbotninum á píanói ef rif aftan á honum eru laus og svo geta píanólokin að sjálfsögðu víbrað.
Einu sinni leitaði ég heillengi að suði í Steinway flygli og komst að því eftir dúk og disk að það kom frá lyklinum í lásnum.
Suð utan píanós
Þetta er skemmtilegasta suðið því orsakirnar geta verið svo fáránlegar að þær gleymast seint. Það er nokkuð algengt að myndarammar ofan á píanóum víbri. Það er voða týpískt og svosem ekki í frásögur færandi.
Einu sinni fór ég í píanóstillingu. Mér fannst hljóðfærið standa frekar langt frá veggnum en ekki nóg til að gera athugasemd við það.
Viðkomandi kvartaði yfir því að mið C væri eitthvað skrítið. Ég stillti píanóið en fann ekkert voðalega athugavert við þá nótu. Svo kvaddi ég með virktum og hélt heim á leið. Allir voða ánægðir. Hálftíma síðar fékk ég upphringingu um að eitthvað væri í ólagi.
Ég skrapp með föður mínum á staðinn til að græja þetta mál og, jújú, tók eftir því að píanóið var núna komið alveg upp að veggnum og nú suðaði alveg óskaplega í mið C. Viðkomandi hafði sumsé dregið píanóið aðeins frá veggnum áður en ég kom og fært það aftur nær honum eftir að ég fór.
Ég þarf að lýsa þessu aðeins:
Stofan var notuð sem nuddstofa. Það var s.s. nuddbekkur á staðnum og manneskja í nuddi. Kósí.
Þarna var glerskápur – þá meina ég skápur sem var næstum bókstaflega úr gleri á alla kanta, fullur af litlum glerstyttum. Ef ég væri víbringur, þá myndi ég vilja búa þar.
Ennfremur var þarna að finna dýrindisskenk með ca. 40 áskrúfuðum látúnsstykkjum sem öll voru fyrirtakskandídatar til víbrings og leiðinda.
Við faðir minn vorum heilt korter að finna upptök suðsins. Ekki var það í píanóinu. Ekki í glermublunni góðu né heldur í látúnsskrautinu.
Þetta fór þannig fram að pabbi spilaði og spilaði nótuna, linnulítið í heila eilífð, en ég reyndi að finna víbringinn með HEITUR/KALDUR aðferðinni. Ég tek það fram að ég hef gríðarlega reynslu í þessu, en þetta var alveg einstaklega erfitt tilvik.
Að lokum lá ég undir skáp. Loksins fann ég suðið! Ég opnaði næstefstu skúffuna, tók allt úr henni og setti það einhvern veginn aftur í hana.
Suðið horfið.
Þarna hafði semsagt einhver tiltekinn hlutur legið á einhvern tiltekinn hátt. Hann víbraði bara á einni nótu og aðeins þegar píanóið stóð uppi við vegginn, hinu megin í stofunni.
En þetta leystist farsællega og þetta píanó er eflaust í fullu fjöri. Vonandi hafði þetta ekki teljandi áhrif á manneskjuna sem hafði í sakleysi sínu pantað nuddtíma en þurfti að hlusta á tvo píanóstillara berja sömu nótuna aftur og aftur.