Óreiða alheimsins eykst og píanó fara úr stillingu.

Stórt þýskt píanó (132cm)

Þetta píanó er að verða falskt

Hér eru 5 helstu ástæður fyrir því að það gerist.

1. Hita- og rakabreytingar

Þegar viðurinn í hljóðfærinu verður fyrir rakabreytingum bólgnar hann út eða skreppur saman. Strengirnir eru mjög nátengdir hljómbotninum í gegnum svokallaðan stiga (e. bridge) og þegar hreyfing verður þar á eykst spennan á strengjunum eða minnkar. Þar sem hljómbotninn er hvað sveigjanlegastur á miðjubilinu á píanóinu verða gjarnan mestar breytingar á stillingunni í miðjunni, ef um rakabreytingu er að ræða. Í lok sumars og á haustin er ekki óalgengt að hljóðfæri hækki sig þónokkuð mikið í miðjunni á skalanum en standi í stað úti í endunum.

2. Notkun

Notkun getur auðvitað valdið því að píanó fari úr stillingu fyrr en ella. Ef mikið er spilað getur einn og einn strengur fljótlega farið úr skorðum. Í rauninni fer píanó svolítið öðruvísi úr stillingu í slíkum tilvikum en ef um hita- og rakabreytingar er að ræða. Við mikla notkun er það oft frekar einn og einn strengur hér og þar sem verður falskur í stað þess að allt hljóðfærið fari kerfisbundið úr stillingu, en auðvitað fer það eftir ýmsu.

3. Skemmdir

Skemmdir í hljóðfærinu geta hraðað því að stillingin versni. Í gömlum hljóðfærum er viðurinn oft orðinn lélegur. Vandamál í svokölluðum stemmistokki eru algeng og geta valdið miklum vandræðum svo einstaka strengir halda engan veginn spennu. Aðrir þættir eins og hljómbotn og stigi geta einnig haft áhrif á stillinguna ef þeir eru mjög illa farnir.

4. Hreyfing

Yfirleitt skiptir ekki máli að píanó séu hreyfð. Þau halda mjög vel stillingu þó þeim sé mjakað til (ég hef séð píanó detta af (kyrrstæðri) kerru en halda stillingunni niður í minnstu smáatriði). Hins vegar hef ég tvisvar á fimmtán árum lent í því að píanó fari úr stillingu við smávægilega hreyfingu, svo maður ætti líklega ekki að útiloka möguleikann á því að þau geti farið úr stillingu við það þó það sé nokkuð ólíklegt.

5. Tíminn

„Stillt píanó“ er að sjálfsögðu ekki náttúrulegt ástand. Spenntir strengir leitast við að jafna út spennuna og slakna.

 

Hér getur þú pantað píanóstillingu og þar með lagt þitt af mörkum við að halda óreiðuaukningu alheimsins í skefjum.