Home · Blog · píanóstillingar : Sálfélagslegar hliðar píanófelskju

Tónkvísl

Eftir ítarleg viðtöl við skjólstæðinga mína hef ég komist að raun um að langvarandi felskja hljóðfæra (ef frá er talin náttúrleg raddfelskja) stafar gjarnan af fullkomnum samdaun viðkomandi við sitt tónlistarlega nærhljóðumhverfi (e. Immediate Aural Environment). Einstaklingur sem að jafnaði spilar á falskt hljóðfæri hættir að gera greinarmun á því hvað er rétt eða rangt, einkum m.t.t. hljóms.²

Afleiðingar langvarandi felskju geta verið margvíslegar og ber að nefna eftirfarandi:

  • Aukinn kostnaður við píanóstillingar þegar þær eru loks framkvæmdar
  • Aukin hætta á strengjasliti vegna mikillar spennuaukningar á strengjum
  • Ónóg þjálfun söngvara á hæstu nótum þar eð tónhæð hljóðfærisins er óæskilega lág
  • Almenn vonbrigði gesta í teiti (ath. ástand hljóðfæris getur orðið að aukaatriði þegar líður á kvöldið, skv. vitnisburði ótal viðmælenda)

Í kjölfar píanóstillingar

Viðbúið er að snörp umskipti í kjölfar stillingar veki sterk viðbrögð hjá viðkomandi. Hins vegar er erfitt að spá fyrir um raunverulegt eðli þeirra viðbragða, sér í lagi ef felskjan hefur varað áratugum saman.

Sé viðkomandi enn viðbjargandi getur stillingunni fylgt nokkuð taumlítil hamingja, enda gera flestir sér þá þegar grein fyrir því hversu mjög þeir hafi vaðið hljóðvilluna áður. Á hinn bóginn er mögulegt að viðkomandi sé í mikilli afneitun. Til eru dæmi um píanóeigendur sem fara fram á endurfelskjun³ nýstillts hljóðfæris sökum þeirrar streitu sem umskiptin valda, en nýstillt píanó hljómar gjarnan eins og allt annað hljóðfæri en viðkomandi telur sig hafa átt áratugum saman.

¹Andersson, K., Zwicky, L (1977) . Coping with out-of-tuneness – Societal implications of the unwillingness to have a tuning performed on one’s piano. Journal of Instrumental Psychology, 24, 233-234 *

²Celesjni, R, Braggadoccio, E., Walker, T.R., (1999) Out of tune? Common misconceptions about inharmonicity. Paris, TX, USA: Anderson & Smith *

³Tuner, E.O. (1997) “I’ll de-tune it if you promise not to say who your tuner is” – Autobiography of a disgruntled tuner/technician.Centralia, WA: Kant, Heidegger & Socrates *

*þessar heimildir eru algjört bull, sko.

 

© 2018 Píanóstillingar.is