Spilverkið í píanói er flóknasti partur þess. Hver nóta samanstendur af fjölmörgum pörtum sem þurfa að virka á ákveðinn hátt til að ánægjulegt sé að spila á píanóið. Þar sem nóturnar eru tæplega 90 er spilverksstilling tímafrekt verkefni.

Vanstillt spilverk veldur því að erfitt er að framkalla tónana eins og fólk vill. Píanóstilling ein og sér snýst aðeins um að breyta spennunni á strengjunum þannig að þeir hljómi rétt. Spilverksstilling er þess vegna annað verk sem þarf að framkvæma sérstaklega.

Stilling á því hvenær hamarinn kúplast frá hreyfingu nótunnar

Spilverk píanóa fara úr stillingu vegna notkunar, en einnig vegna breytinga á hita- og rakastigi. Þau samanstanda af hlutum sem eru aðallega gerðir úr viði, filti, leðri og málmi. Með tímanum aflagast allir þessir hlutir og afstaða þeirra breytist. Píanóið missir þannig hæfileikann til að svara óskum píanistans.

Meðal þess sem vanstillt spilverk getur orsakað:

tvísláttur

erfitt að spila veikt

léleg svörun

og ótalmargt fleira

Næst þegar þú lætur stilla píanóið þitt skaltu því forvitnast um hvort það sé hægt að stilla spilverkið þannig að það svari betur.