Home · Blog · píanóstillingar : Hvernig er píanó stillt?

Fyrsta skrefið í píanóstillingu er að mæla tónhæð hljóðfærisins með tónkvísl. Ég nota tónkvísl með tíðninni A440. Hún víbrar s.s. 440 sinnum á sekúndu og gefur frá sér „réttan tón“. Ef mið-A (a’) er t.d. A438 á píanóinu heyrist munurinn sem tvær sveiflur á sekúndu, eða mismunurinn á 440 og 438.

Að stilla „temperament“

Þegar A440 hefur verið stillt rétt á píanóinu er komið að því að leggja grunninn að stillingunni. Í miðjunni á píanóinu er búin til eins konar smækkuð útgáfa af allri píanóstillingunni. Tólf nótur, frá f upp á f’, eru stilltar eftir mjög skýru og afmörkuðu ferli.

Ferundir eru „útvíkkaðar“ um tvö cent, eða 2% úr hálftóni. Fimmundir eru hins vegar samandregnar um tvö cent. Þríundir og sexundir eru útvíkkaðar.

Hin fullkomna píanóstilling

Þegar temperamentið er tilbúið:

  • eiga ferundir að hafa í sér sveiflu sem er um 3 sveiflur á 5 sekúndum.
  • eiga fimmundir að sveiflast um 2 sinnum 5 sekúndum
  • eiga þríundir að vera hraðari og hraðari eftir því sem ofar dregur, frá ca. 7 riðum upp í 11-12 rið innan temperamentsins.
  • eiga sexundir að vera hraðari og hraðari eftir því sem ofar dregur
  • eiga ákveðnar þríundir að vera jafnhraðar og ákveðnar sexundir, en það sýnir fram á ákveðið jafnvægi innan stillingarinnar
  • á áttundin f-f’ að vera því sem næst hrein, eða smávægilega útvíkkuð, en alls ekki samandregin.

Þetta er sem sagt niðurstaðan í fullkomnum heimi. Í raunverulegri stillingu þarf alltaf að gera ákveðnar málamiðlanir og þá þarf oft mikla útsjónarsemi til að stillingin fari ekki algjörlega í vaskinn.

Næmni tónbila þegar verið er að stilla píanó

Þegar ég hef farið í gegnum temperament einu sinni þarf yfirleitt að endurskoða ýmis tónbil. Það getur verið að einhver þríundin sé of hröð eða of hæg. Stundum eru fimmundir of hraðar og hljóma því óhreint. Það er í raun ótalmargt sem þarf að skoða og vandamálið, eða úrlausnarefnið, er að ein lítil breyting á einum streng hefur áhrif í gegnum allt temperamentið (og alla stillinguna á mun stærri skala ef út í það er farið).

Hér eru tónbilin sem ég miða við í röð eftir „viðkvæmni“. Þríundir eru næmastar (breytast drastískt við litla spennubreytingu) en áttundir þola mun meira.

  • Þríundir (og sexundir)
  • Fimmundir
  • Ferundir
  • Áttundir

Ef maður rekur sig á þríund sem er of hröð, er eðlilegasta skrefið að athuga hvort aðliggjandi ferund eða fimmund leyfi ekki breytingar til að þríundin geti orðið réttari. Oftast er það raunin, enda er hægt að breyta þríund þónokkuð án þess að það heyrist mikið á ferundinni eða fimmundinni sem tekur þá óhjákvæmilega einhverjum breytingum í kjölfarið. Þetta á við um fleiri tónbil og sýnir ágætlega hversu mikil málamiðlun píanóstilling er í eðli sínu.

 

© 2018 Píanóstillingar.is