Home · Blog · heilræði : Hversu oft þarf að stilla píanó?

„La persistencia de la memoria“ eftir Salvador Dalí

„Hvenær á ég að láta stilla píanóið næst?“ er líklega algengasta spurningin sem stillari fær.

Það er reyndar mjög misjafnt hversu ört þarf að stilla píanó.

Yfirleitt er talað um að láta stilla píanó einu sinni á ári. Þá tölu má án efa rekja til þess að á einu ári gengur hljóðfærið í gegnum öll árstíðaskiptin og þær hita- og rakabreytingar sem fylgja þeim.

Við breytingar á hita- og rakastigi þenst viðurinn í hljóðfærinu út og skreppur saman á víxl. Þetta veldur spennubreytingum á strengjunum og hressilegar breytingar geta bókstaflega þurrkað út stillinguna á píanóinu.


Hér eru ýmis atriði sem þarf að meta þegar spurningunni er svarað:

  • Ef píanóið er nýtt (ca. 4 ára eða yngra) þarf að stilla örar þar sem strengirnir eru ennþá að togna. Setningar eins og „En þetta er flunkunýtt“ og „En er þetta ekki stillt í verksmiðjunni?“ eiga ekki við í þessu tilviki, því þetta er eðlilegt ferli.
  • Ef píanóið er notað í námi þarf að stilla oftar. Það er aðallega vegna þess að kröfurnar eru meiri en ella. Hins vegar fer hljóðfærið fyrr úr stillingu ef það er mikið notað (sem gefur reyndar til kynna að það sé vel þess virði að styðja vel við nemandann og láta stilla oft)
  • Ef hljóðfærið er notað til tónleikahalds þarf að stilla fyrir hverja tónleika ef vel á að vera. Fólki gæti þótt svo örar stillingar of mikið en raunin er sú að á tónleikum getur stillingin breyst nógu mikið til að hljóðfærið þurfi að stilla aftur. Það er þó auðvitað matsatriði í hvert skipti.
  • Það þarf að sjálfsögðu ekki að nefna það að öll píanó á að stilla fyrir upptökur. Ótal dæmi eru um upptökur sem líða fyrir það flygillinn er falskur og upptökurnar lifa áfram.
  • Ef píanó stendur á stað þar sem það er útsett fyrir breytingum á hitastigi þarf að stilla örar.

Hægt að halda því fram að það sé betra fyrir píanóið að vera stillt ört. Ef langur tími líður er hætt við að spennan á strengjunum sé orðin mjög lág og að spennubreytingin verði mikil þegar loksins kemur að stillingu.

Hins vegar er varla hægt að segja að hljóðfærið sé í stórhættu ef örfá ár líða á milli píanóstillinga. Þegar tíminn fer að verða mældur í áratugum getur það þó farið að verða alvarlegra mál.

Góð regla er því að láta ekki mjög langan tíma líða á milli stillinga. Ég mæli með því að láta stilla einu sinni á ári. Ef það þykir of ört ætti ekki að láta líða lengra en 2 ár á milli stillinga, sé píanóið í einhverri notkun.

Smá leiðbeinandi samantekt í lokin:

  • Píanó sjaldan notað: Ekki láta líða meira en 3-5 ár á milli stillinga, bara til að tryggja lágmarksviðhald.
  • Píanó notað reglulega: Stilla a.m.k. annað hvert ár
  • Píanó notað í námi: Stilla einu sinni á ári
  • Píanó notað í tónleikastarf: Stilla helst fyrir hverja tónleika
  • Píanó notað í upptökur: Stilla fyrir hverja upptöku, án undantekningar, jafnvel með píanóstillarann í kallfæri.

 

© 2018 Píanóstillingar.is