20 milljón króna konsertflygil frá Steinway, Bösendorfer eða Fazioli. Það er augljóslega besti kosturinn.
Ef við gefum okkur hins vegar að peningar séu takmörkuð auðlind þá vandast málið.
Ef ætlunin er að kaupa hljóðfæri fyrir 1-2 milljónir króna myndu margir freistast til að kaupa flygil. Ég vil þó meina að í því tilviki geti verið skynsamlegra að kaupa stórt, upprétt píanó í hæsta gæðaflokki.
Ástæður fyrir því eru nokkrar:
- Fyrir rúma milljón er hægt að kaupa verulega gott, stórt píanó af þekktri tegund
- Fyrir rúma milljón er hægt að fá mjög ódýran og lítinn flygil af minna þekktri tegund.
Litlir flyglar hafa oft styttri bassastrengi en stór píanó. Styttri bassastrengir verða að vera sverari til að geta sveiflast með sömu tíðni og lengri bassastrengir. Sverari strengir hafa óhreinni tón en þeir grennri. Þar af leiðir að litlir flyglar geta oft haft lakari tóngæði en stór píanó.
Vissulega hafa flyglar það fram yfir píanó að spilverkið í þeim virkar öðruvísi. Það er alla jafnan betri svörun í flygilsspilverkum. Það eitt og sér dugar þó tæplega til að réttlæta kaup á litlum flygli umfram stórt og gott píanó.
Ef fjárheimildin er 1-2 milljónir er fólk í grundvallaratriðum að velja á milli þess dýrasta úr einum flokki (píanó) og þess ódýrasta úr öðrum flokki (flyglar). Inn í þetta spila svo gæði hinna fjölmörgu þátta sem hljóðfærið samanstendur af.
Hvað er lítill flygill lítill?
Það er auðvitað afstætt en flyglar undir 180 cm eru farnir að teljast mjög litlir. Persónulega finnst mér að flyglar þurfi að nálgast 2 metra til að verða virkilega spennandi. Slíkir flyglar eru þó yfirleitt í minni kantinum hvað tónleikahald varðar. Flyglar í tónleikasölum verða helst að vera vel yfir 2 metrar að lengd. Yfirleitt eru konsertflyglar yfir 270 cm á lengd og það er ekki upp á punt. Hver sentímeter skiptir máli upp á tóngæðin.
Það er hins vegar raunhæft að mæla með flyglum í kringum 180 cm fyrir heimili.
Hvað er stórt píanó stórt?
Píanó telst vera fullvaxið í ca. 130 cm hæð. Líklega eru ekki framleidd píanó sem eru hærri en 132 cm.
Hafa ber í huga að í lengd flygla er dýptin á spilverkinu og nótunum innifalin. Strengjalengdin byrjar ekki að telja fyrr en vel inn fyrir fremri enda flygilsins. Hæð píanóa er mæld frá gólfi og upp á topp. Þar sem nótnaborðið telur ekki þegar hæð píanóa er annars vegar eru bassastrengirnir í píanóum í meira samræmi við heildarhæð hljóðfærisins heldur en heildarlengd flygla er í samræmi við bassastrengjalengd þeirra.
Að lokum verður hver að gera upp við sig hvað hann vill. Það er mjög misjafnt hvað fólk metur. Það er hins vegar nóg af valkostum og um að gera að meta þá vel áður en ráðist er í stórkaup.
Ég mæli einnig eindregið með því að fólk geri ráð fyrir stillingakostnaði þegar það velur hljóðfæri. Það er örugglega ekkert gaman að eiga dýrt hljóðfæri sem er rammfalskt.