Það getur verið svolítið snúið fyrir fólk að velja heppilegt notað píanó. Hér eru teknar saman ráðleggingar sem ég veiti yfirleitt þegar fólk hringir í mig til að forvitnast um skynsemi tiltekinna píanókaupa. Ég vona að þetta gagnist þeim sem eru í píanóleit.
Þetta eru mjög almennir punktar og ber ekki að oftúlka. Hafið í huga að þó píanó sé ekki nógu gott til að vera heppilegt fyrir nemanda getur það engu að síður veitt eigandanum ánægju og yndisauka og verið vel þess virði að eiga og njóta.
Er þetta píanó fyrir nemanda?
Ef svo er, þá verður það að vera nokkuð gott og í góðu ásigkomulagi. Gerðu ráð fyrir að það kosti svolítinn pening ef það á að endast nemandanum lengur en í eitt ár. Þó píanó sé ekki alveg vonlaust getur það verið svo illa farið eða gæðin það lítil að nemandinn fari fljótt fram úr því í getu. Ef það gerist er ekki gaman að æfa sig heima og áhuginn minnkar. Ef nemandinn hættir vilja foreldrarnir líklega vita fyrir víst að það hafi ekki verið hljóðfærið sem þeir keyptu sem olli áhugaleysinu. Góð notuð píanó er yfirleitt hægt að selja aftur á góðu endursöluverði. Einnig þarf að huga að því að halda píanóinu vel við og láta stilla það nægilega oft.
Hvað er píanóið hátt?
Hæð píanóa skiptir miklu máli. Hver sentímeter til eða frá hefur sitt að segja í stærð hljómbotns og strengjalengd. Einnig er munur á spilverkum í stórum píanóum og litlum.
132 cm : Píanó verða í raun ekki hærri en þetta.
127 cm : Mjög góð stærð og algeng
118 cm : Minnsta stærð sem ég myndi persónulega mæla með fyrir nemanda sem er kominn eitthvað áleiðis.
115 cm : Farið að nálgast minni kantinn nokkuð mikið
108 cm : Í lagi fyrir byrjendur
Lægra hljóðfæri er að öllum líkindum píanetta.
Er þetta yfirdempað píanó?
Yfirdempuð píanó eru undantekningarlaust mjög, mjög gömul og henta engan veginn fyrir nemendur. Spilverkið í þeim er byggt á eldri tækni sem lagðist að stærstum hluta af vel fyrir árið 1920. Hún felur í sér að dempararnir eru fyrir ofan hamrana og það veldur því að tónninn dempast mun verr en venjulega. Oft eru þessi píanó hreinlega óstillanleg þar sem viðurinn í þeim er oft illa farinn.
Yfirdempuð píanó eru yfirleitt mjög falleg og þykja mikið stofustáss. En þau eru ekki lengur mjög nothæf sem hljóðfæri og alls ekki til að læra á. Þar sem svona hljóðfæri eru oft ættargripir er skiljanlegt að fólki þyki afskaplega vænt um þau og því ber að sýna skilning.
Það er auðvelt að þekkja yfirdempað píanó frá hefðbundnari píanóum. Það eina sem þarf að gera er að opna efra lokið og líta inn í píanóið. Ef það er stór viðarplanki sem gengur lárétt yfir allt spilverkið þá er um yfirdempað píanó að ræða. Lóðréttu vírarnir sem eru fyrir hömrunum eru einnig einkenni yfirdempaðra píanóa, en þau eru einmitt kölluð „birdcage pianos“ á ensku vegna útlitsins á vírunum sem minna svolítið á fuglabúr.
Er þetta píanetta?
Píanettur eru í raun ekki framleiddar lengur. Þetta eru hljóðfæri sem líta nokkurn veginn eins út og píanó nema hvað að þau eru mjög lág (ca. 105 cm eða lægri). Munurinn á píanói og píanettu liggur aðallega í hæðinni og í spilverkinu. Þær eru þó svipaðar á dýpt og breidd, svo plássið sem sparast er kannski ofmetið. Þar sem píanettur eru mjög lágar eru strengirnir mjög stuttir í bassa og miðhlutanum. Strengirnir þurfa því að vera sverari en ella (smá eðlisfræði þar á bakvið) og tónninn er þar af leiðandi óhreinni. Það er ekki hægt að stilla píanettur eins vel og stærri hljóðfæri, en það má líklega rekja til þess að hönnuðurinn þarf að gera ótal málamiðlanir í hönnuninni vegna plássleysis.
Spilverkið í píanettum liggur í raun fyrir neðan nóturnar (þar sem hljóðfærið er svo lágt) og það felur í sér annars konar nálgun í uppbyggingunni sem gerir snertinguna verri. Það sem er einna óheppilegast, praktískt séð, við píanettur er hversu erfitt er að vinna við spilverkið. Að laga bilun í píanettu getur tekið alveg óskaplega langan tíma vegna þess að það er svo mikið mál að fjarlægja spilverkið úr þeim. Í venjulegu píanói þarf bara að losa nokkra hnúða og þá er spilverkið laust, en í píanettum þarf að aftengja hverja einustu nótu til þess að ná spilverkinu út.
Yfirleitt ráðlegg ég fólki að skipta um hljóðfæri um leið og nemandinn sýnir vilja til að halda áfram. Að mínu mati væri æskilegast að læra ekki mikið lengur en eitt ár á píanettu til að sjá hvort viðkomandi vilji halda áfram.
Píanettur geta hentað mörgum þar sem þær eru litlar og meðfærilegar. Það er með þeirra helstu kostum, með fullri virðingu fyrir þeim, enda eflaust framleiddar til að uppfylla einhverja þörf um lítil píanó á markaði. Ég veit um nokkur dæmi þess að tónlistarmenn hafi notað píanettur í upptökum vegna „sjarmerandi tóns“ og auðvitað er allt gott um það að segja, enda markmiðið þá kannski að ná fram ákveðnum blæ.
Dæmi um algengar píanettur á Íslandi: Baldwin, Sohmer, Knight og Eavestaff Minipiano.
Er píanóið undarlega mikið falskt?
Píanó eiga það vægast sagt til að verða fölsk. Hins vegar getur „tegund felskjunnar“ gefið vísbendingu um hvort eitthvað meiriháttar sé að. Á flestum nótum í píanóum (nema neðst í bassanum) eru 2-3 strengir. Þegar píanó fer úr stillingu er eðlilegt að þeir hljómi ekki rétt saman, en ef einn strengur er „alveg lengst, lengst niðri í kjallara“ miðað við hina strengina á sömu nótu þá getur það bent til þess að sumar stilliskrúfur séu hættar að halda spennunni. Það getur verið mikið vandamál í verri tilvikum. Prufaðu að spila krómatískan skala og ef margar nótur eru fáránlega falskar einar og sér getur það bent til vandræða. Þú þarft þó að fá píanóstillara til að sannreyna hvort um slíkt vandamál sé að ræða.
Er búið að slá stilliskrúfurnar lengra inn?
Gömul píanó hafa auðvitað yfirleitt verið stillt áður í fyrndinni. Ef fyrri stillari hefur rekið sig á vandamál með lausar stilliskrúfur getur verið að viðkomandi hafi ákveðið að slá þær lengra inn í stemmistokkinn, viðinn sem heldur stilliskrúfunum. Það er hægt að sjá á strengjavafningum. Yfirleitt er ca. hálfs sentímetersbil á milli strengjavafnings og pottjárnsrammans en ef bilið er horfið og strengjavafningurinn kominn alla leið „upp að vegg“ er líklegt að um vandamál með stilliskrúfurnar hafi verið að ræða.
Er búið að nota hersluvökva á stilliskrúfurnar?
Stundum er reynt að láta stilliskrúfur halda betur með því að nota þar til gerðan vökva. Þá er píanóið lagt á bakið og sérstakur hersluvökvi látinn drjúpa inn undir stilliskrúfurnar. Slíkt getur hjálpað til en er ekki mjög endingargóð lausn. Myndin hér fyrir neðan er lýsandi dæmi um svona meðferð. Ef vökvinn lekur út fyrir stilliskrúfugatið er hægt að sjá ummerkin í formi litamismunar en yfirleitt er litamunurinn ekki alveg svona sláandi eins og á myndinni hér fyrir neðan.
Er píanóið einstaklega fallegt?
Fegurð mublunnar er oft í öfugu hlutfalli við gæði eða ásigkomulag hljóðfærisins. Því fallegri mubla, þeim mun líklegra er að píanóið sé mjög gamalt og orðið hrörlegt að innan. Munið að falleg píanó þykja svo góðar mublur að þau eru enn til staðar á heimilum þrátt fyrir það að hafa fyrir löngu lokið hlutverki sínu sem hljóðfæri. Ef píanóið er til sölu sem „falleg antík“ er ráðlegt að staldra við ef ætlunin er að nota það til að flytja tónlist.
Auðvitað eru til falleg og gömul hljóðfæri sem eru ennþá nothæf en allar líkur eru á að það sé mjög margt sem þarf að gera til þess koma því í raunverulega gott ástand. Búast má við töluverðum kostnaði við það, en slíkt getur alveg verið kostur í sumum tilfellum.
Hefur píanóið verið gert upp?
Oft er bara gert við suma þætti í píanóum en ekki aðra. Það er nauðsynlegt að vita eitthvað um viðgerðina ef maður ætlar að kaupa viðgert eða uppgert píanó.
Spyrjið t.d. eftirfarandi spurninga:
- Hvenær og hvar var það gert upp?
- Var skipt um strengi og stilliskrúfur?
- Var skipt um hamra og demparafilt?
- Var skipt um filt í nótum, filtfóðringar í spilverki og svo framvegis?
- Var gert við hljómbotn?
- Var skipt um stemmistokk?
- Var kassinn gerður upp?
Þetta er allt eitthvað sem þarf að vita til að taka ákvörðun um hvort eigi að kaupa píanóið eða ekki.
Frá hvaða landi er píanóið?
Hér á eftir er smá samantekt á almennu viðhorfi mínu sem píanóstillara til píanóframleiðslu, flokkað eftir löndum. Þetta er ekki tæmandi listi, né er þetta algildur dómur um öll hljóðfæri af tilteknum uppruna. Í hverjum hópi er að finna píanó sem eru betri eða verri en hljóðfæri í öðrum hópum. Þetta skarast allt og er að mörgu leyti ósambærilegt og byggt á smekk. Mér þykir þó ástæða til að setja þessa tilfinningu mína fyrir úrvalinu á blað svo það megi gagnast öðrum.
Þýsk píanó
Þýsk hljóðfæri eru yfirleitt talin með þeim bestu. Hefðin þar er mjög gömul og sterk eins og gefur að skilja.
- Fyrir seinna stríð: Yfirleitt gæðamikil hljóðfæri en gömul, með öllu sem fylgir því, eðli málsins samkvæmt.
- Vestur-Þýskaland: Yfirleitt mjög góð hljóðfæri. Mörg dýrustu merkin eru þaðan.
Dæmi: Steinway & Sons, Bechstein, Grotrian Steinweg, Steingraeber og Seiler svo fátt eitt sé nefnt.
Hollensk píanó
Til er ein tegund af hollenskum píanóum hér á landi og þau hafa reynst mjög vel. Þau eru þó ekki framleidd lengur.
Tegund: Rippen
Norður-kóresk píanó
Það er til ein tegund af píanóum sem er framleidd í Norður-Kóreu. Þetta eru ekki hágæðapíanó eins og gefur að skilja, en eru þó ekki eins slæm og maður gæti haldið miðað við aðstæður í Norður-Kóreu.
Tegund: Gratiae
Bandarísk píanó
Fyrir 1950: Mjög stór píanó, oft nokkuð voldug og góð að upplagi en gjarnan í mjög slæmu ásigkomulagi.
Eftir 1950: Amerískum píanóiðnaði þykir hafa hnignað í kringum 7. áratuginn. Það er til nokkuð af amerískum píanettum og litlum píanóum frá þessum tíma sem hafa frekar skæran tón. Þau geta verið ásættanleg fyrir byrjendur.
Dæmi: Baldwin, Sohmer, Kimball
Bresk píanó
Bresk nútímapíanó hafa reyndar ekki talist sérstaklega góð. Þau sem er að finna hér á landi eru í það minnsta ekki með þeim gæðameiri. Þau hafa yfirleitt frekar dauðan tón sem mér skilst að sé vegna lágs kolefnisinnihalds í strengjastálinu.
Dæmi: Knight, Bentley, Broadwood,
Rússnesk, hvít-rússnesk og úkraínsk píanó
Píanó frá þessum löndum eru því miður augljóslega byggð af nokkrum vanefnum og gæðin haldast auðvitað í hendur við það.
Dæmi: Gertz, Steinbach, Bechner, J. Becker
Austur-evrópsk píanó
Oft má finna ágætis byrjendapíanó frá Austur-Þýskalandi, gömlu Tékkóslóvakíu, Ungverjalandi og Póllandi. Þau eru gjarnan nokkuð nett og oft í ljósum viðarlit. Mér finnst þau að mörgu leyti svipuð, enda öll undir sama hatti Varsjárbandalagsins á sínum tíma.
Dæmi:
Austur-þýsk: Förster, Finger, Zimmermann, Geyer
Pólsk: Legnica
Ungversk: Uhlmann, Musica
Tékknesk: Petrof, Rösler.
Ath. að nokkuð er af stærri Petrof hljóðfærum (ca. 120-125cm há) á Íslandi sem eru töluvert betri en litlu austur-evrópsku píanóin í þessum lista.
Tékklensk píanó
Yfirleitt góð hljóðfæri sem minna þónokkuð á Petrof sem er fræg tegund frá gömlu Tékkóslóvakíu.
Dæmi: Klima, Bohemia
Suður-kóresk píanó
Urðu vinsæl á seinni hluta 9. áratugarins og voru á sínum tíma mest seldu hljóðfærin hér á landi. Suður-kóresku hljóðfærin komu ca. 20 árum á eftir japönsku píanóunum á vestrænan markað. Fyrst voru þau seld sem ódýr hljóðfæri en gæðin hafa aukist og í dag eru þau orðin dýrari og mun betri en þau voru upprunalega.
Dæmi: Samick, Hyundai, Young Chang, Royal
Japönsk píanó
Yfirleitt góð píanó að upplagi. Ný japönsk hljóðfæri eru yfirleitt mjög góð. Það eru til mörg lítil og eldri Yamaha píanó sem geta verið ágætur kostur fyrir byrjendur. Japönsk hljóðfæri ollu vissu uppnámi á Bandaríkjamarkaði því þau voru ódýr og urðu fljótt betri eftir því sem gæði smíðinnar jukust þar eystra.
Dæmi: Yamaha, Kawai, Atlas
Kínversk píanó
Gæði kínverskrar framleiðslu hafa aukist síðasta áratuginn og mörg merki frá öðrum löndum eru framleidd þar. Eldri kínversk píanó eru fá hér á landi og ekki sérlega góð.
Dæmi: Goodway, Pearl River, Ritmüller, Otto Meister (eldri), Shanghai (enn eldri)
Dönsk píanó
Mikið er af gömlum dönskum píanóum á Íslandi. Þetta voru fín píanó hér áður fyrr en þau geta sum verið yfirdempuð og illa farin.
Dæmi: Hornung & Möller, Herman N. Pedersen, Hindsberg, Andreas Christensen
Sænsk píanó
Það eru til nokkur gömul sænsk merki.
Dæmi: Nordiska, Malmsjö
Finnsk píanó
Til eru einhver hljóðfæri frá 7. 8. og 9. áratugnum. Yfirleitt eru þetta lítil hljóðfæri og svipar svolítið til Austur-Evrópsku hljóðfæranna frá sama tíma, finnst mér.
Dæmi: Hellas, Fazer
Gangi þér vel með kaupin!
Vonandi hafa þessar pælingar gagnast þér. Gaman væri ef þú létir aðra sem eru að leita að notuðu píanói vita af þessum pistli.