Ertu að pæla í píanóflutningum?

Áður en þú lætur flytja geturðu bókað píanóstillingu hjá mér á í bókunarkerfinu. Ef þú veist hvenær píanóið kemur getur þú einfaldlega valið þér tíma sem hentar, til dæmis 2 vikur fram í tímann.

Hvernig á að flytja píanó?

Varlega. Það er auðvelt að skemma píanóið, gólfið eða líkamann ef þetta er ekki gert rétt. Aftan á píanóum eru yfirleitt handföng sem hægt er að nota til að lyfta þeim upp á trillu. Fjögur málmhjól eru neðan á píanóum en vegna þess hversu píanóið er þungt geta hjólin stórskemmt gólf ef píanóinu er rúllað yfir það. Notið trillu með gúmmíhjólum til að vernda gólfið og leggið einnig þykkt teppi yfir píanóið til að verja það gegn rispum. Það er mjög æskilegt að hafa lyftubíl til umráða vegna þess hversu þung píanó eru og munið að festa þau vel, með svampi á milli strappans og píanósins til að það merjist ekki.

Ég mæli eindregið með því að fá fagmann í flutninginn. Að flytja píanó er miklu erfiðara en að flytja stórar mublur, enda eru þau mun þyngri en flest annað sem fólk flytur dagsdaglega. Þetta er ekkert grín!

Hvernig á ekki að flytja píanó?

Til dæmis svona:

Eða svona.

Hvernig á að flytja flygla?

Flyglar eru fluttir á hliðinni, enda væri ansi erfitt að koma þeim á leiðarenda öðruvísi. Þeir eru lagðir á hliðina, ofan á trillu og lappirnar skrúfaðar undan. Fyrst þarf auðvitað að nótnastatífið, lýruna og stóra lokið af þeim. Eins og þið getið ímyndað ykkur er lítið vit í öðru en að fá bara fagmenn í píanóflutningum til að flytja flygil.

Hvað eru píanó þung?

Minnstu píanóin geta verið léttari en 150 kíló en stærstu flyglar um hálft tonn að þyngd. Sem viðmið getur 120-130 cm píanó verið í kringum 230-250 kíló. Eldgömul píanó með umfangsmikla kassa geta jafnvel verið enn þyngri. Ástæðan fyrir þessari miklu þyngd er að miklu leyti pottjárnsramminn sem er í píanóunum.

Hver eru málin á píanóum?

Upprétt píanó eru yfirleitt á bilinu 105-130 cm á hæð, um 155 cm á breidd og um 60 cm á dýpt. Þetta eru bara viðmið, en breytileikinn er mestur á hæðina litið.

Ef píanóið er of stórt til að hægt sé að flytja það á sinn stað gæti verið möguleiki að hífa það inn eða út um svalir með krana. Það er vissulega merkilegt sjónarspil en getur verið mjög góður og auðveldur kostur þegar allt kemur til alls, enda þarf þá oft færri menn í flutninginn.

Píanó flutt með krana:

Þarf að stilla píanó eftir flutning?

Hreyfingin við flutninginn hefur í raun ekki áhrif á stillinguna. Hins vegar hafa hita- og rakabreytingar áhrif og best er að láta stilla hljóðfærið fljótlega að flutningi loknum, t.d. 1-2 vikum síðar. Þá hefur píanóið líklega náð að laga sig að nýju umhverfi.

Píanóflutningamenn

Það eru til ýmsir píanóflutningamenn og auðvelt að finna þá á Já.is. Það er æskilegt að viðkomandi hafi lyftubíl, bönd til að lyfta og trillu til að rúlla píanóinu á.

Hvað þarf marga til að flytja píanó?

Ef píanóið er á jarðhæð og er sömuleiðis á leiðinni inn á jarðhæð gæti verið mögulegt að panta einn mann í verkið ef annar getur tekið á móti. Ef það er hins vegar nauðsynlegt að fara upp tröppur verður flutningurinn strax miklu erfiðari og þá þarf gjarnan fjóra menn til að flytja.

Hvað kostar píanóflutningur?

Það fer eftir því hversu marga menn þarf að fá. Ef nauðsynlegt er að fá fjóra menn í verkið getur flutningur kostað fleiri tugi þúsunda.

Gangi þér vel með píanóflutninginn!

Ath. að ég er ekki píanóflutningamaður. Þessi umfjöllun er aðeins til upplýsingar og eftir minni bestu vitund hvað píanóflutninga varðar og byggt á samskiptum mínum við píanóflutningamenn.