Home · Blog · píanóstillingar : Absolut Heyrn
Fullkomið tóneyraÉg hef verið spurður að því hvort ég sé með „absolút-heyrn“ eða „fullkomið tóneyra“ og hvort það hjálpi ekki við píanóstillingar

Svarið er tvöfalt nei, í rauninni. Ég er ekki með „fullkomið tóneyra“ og eftir því sem ég kemst næst er frekar hæpið að hið svokallaða „fullkomna tóneyra“ hjálpi mjög mikið við píanóstillingar, ef nokkuð yfirleitt.

Hið fullkomna tóneyra sem oft er rætt um er nefnilega ekki nægjanlegt eitt og sér þegar kemur að píanóstillingu.

Lítum aðeins nánar á þetta.

Hvað er fullkomið tóneyra?

Þegar fólk er með absolút heyrn getur það sagt til um hvort tiltekin nóta sé A eða Fís, sem dæmi. Ég þekki tónlistarmann sem getur greint marga tóna samtímis. Það er eiginlega merkilegt að heyra hann lýsa þessu. Það er líka fyndið að einhver geti sagt manni að ísskápur hljómi sem G.

En getan til að heyra tón og segja að hann sé „A“ gagnast lítið þegar hljóðfæri er stillt.

A er nefnilega ekki bara A. Það eru til (óendanlega) mörg Ö (A í fleirtölu = Ö 🙂 )

A440 er mjög ólíkt A442 og í rauninni vinna píanóstillarar með mun fínlegri blæbrigði. Breytingarnar sem við gerum mælast í brotum af prósentum af hálftóni.

Það er enginn möguleiki fyrir manneskju að benda á A og segja: „þetta A er 440,5 Hz“. Það er heldur enginn möguleiki að nota „fullkomna tónheyrn“ til að stilla þríundir (sem eru gríðarlega viðkvæm tónbil og breytast mjög mikið við allra minnstu breytingar).

Píanóstillarar eru þjálfaðir til að heyra mjög litlar breytingar á afstæðan hátt. Við notumst við það sem gæti kallast „afstætt tóneyra“ (e. relative pitch) þar sem hljóðsveiflur sem tveir tónar mynda í sameiningu eru bornar saman í stað „fullkomins tóneyra“ sem gerir fólki kleift að greina einstakar nótur án ytra viðmiðs.

Hér er að finna mjög góða grein á ensku um „fullkomna tónheyrn“

 

© 2018 Píanóstillingar.is