Með mikilli notkun verða hamrar í píanóum aflagaðir og tónninn versnar.

Í þessari upptöku má greinilega heyra hvað hamrar hljóðfærisins eru í slæmu ásigkomulagi. Tónninn er sár, sama hversu fast eða mjúkt píanistinn spilar. Sumar nótur eru mun harðari og sárari en aðrar og hljómurinn verður „köflóttur“. Þó þessi prelúdía sé mjög sár og hryggðin skíni í gegnum tónlistina er óheppilegt að það sé innbyggt í tón flygilsins. Athugið að stillingin á flyglinum er fín og hann er ekki falskur.

Prelude, in E minor, Op. 28/4 by Frédéric Chopin on Grooveshark

Til þess að mýkja tóninn og gera blæbrigðin samfelld þarf að intónera hamra hljóðfærisins. Þar sem breytingar á hömrum verða hægt og bítandi er nauðsynlegt að vera vakandi fyrir þessu og láta intónera með nokkurra ára millibili. Annars er hætt við því að hljóðfærið hljómi mun verr en það annars gæti gert.

Verkfæri til að mýkja tóninn

Eitt af því sem ber að varast er að kveikja á kertum ofan á píanóum. Þau geta sprungið þannig að vaxið leki inn í píanóið. Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri.

Ef hljóðfæri er stillt í tónhæðinni A440 merkir það að næsta A fyrir ofan mið-C hljómar í 440 sveiflum á sekúndu (riðum eða Hz). A440 er sá staðall sem miðað er við í heimahúsum þó önnur viðmið gildi oft í tónleikahúsum.

A er ekki bara A

A440 er viðmið sem síðar varð opinber ISO staðall fyrir tónhæð hljóðfæra. Önnur tónhæðarviðmið hafa áður verið notuð og í dag nota margar sinfóníuhljómsveitir hærri tónhæð en A440 (sjá töflu fyrir neðan).

Tónkvísl - A 440

 

Þróun tónhæðar

Það er reyndar mjög fróðlegt að lesa um þróun tónhæðar í gegnum aldirnar. Ljóst er að hún tók miklum breytingum fyrir nokkur hundruð árum hvort sem það var yfir tímabil, landamæri eða jafnvel innan einstakra borga.

Bent hefur verið á fyrirbrigði sem mér hefur tekist að þýða sem „tónhæðarbólgu“ (e. pitch inflation). Þar sem hljóðfæri hafa að jafnaði bjartari tón eftir því sem tónhæðin hækkar höfðu tónlistarmenn tilhneigingu til að hækka tónhæðina smám saman í gegnum árin. Þannig var viðmiðunartónkvísl Dresdenaróperunnar A423,2 árið 1815 en önnur tónkvísl sem var notuð rúmum áratug síðar við sama óperuhús hafði tónhæðina A435. Þessi þróun varð á endanum til þess að söngvarar kvörtuðu og strengir fóru að slitna.

Hér fyrir neðan hef ég unnið upplýsingar úr gögnum um tónhæð sinfóníuhljómsveita. Sinfóníuhljómsveit Íslands er reyndar ekki inni í þessum tölum, en hún notar A442.

Tónhæð sinfóníuhljómsveita eftir löndum

Vestur Evrópa

Tónhæð (miðgildi)

Austur Evrópa

Tónhæð (miðgildi)

Bandaríkin

Tónhæð (miðgildi)

Austurríki (23) 443 Bosnía (1) 442 Bandaríkin (12) 441
Belgía (2) 442 Búlgaría (2) 442
Sviss (7) 442 Tékkland (7) 443
Þýskaland (50) 443 Ungverjaland (3) 442
Danmörk (3) 442 Króatía (1) 443
Spánn (3) 443 Litháen (1) 444
Frakkland (6) 442 Lettland (1) 440
Bretland (11) 440 Pólland (2) 442.5
Ítalía (4) 442 Rúmenía (1) 442
Lúxembúrg (1) 442 Rússland (5) 443
Noregur (3) 442 Slóvenía (1) 442
Holland (1) 442
Svíþjóð (3) 443
Miðgildi 442 442 441
Tölur innan sviga eru fjöldi sinfóníuhljómsveita í úrtaki. Notast var við miðgildi tónhæðar í stað meðaltals til að sneiða hjá áhrifum útlaga, t.d. þar sem hljómsveitir sem sérhæfa sig í barokktónlist voru í úrtakinu. Fyrst var miðgildi einstakra landa tekið til að minnka úrtaksskekkju, en mikill munur var á fjölda hljómsveita úr hverju landi í heildarúrtaki. Tölfræðingum frjálst að gera athugasemdir :)Upplýsingar unnar af Kristni Leifssyni (www.pianostillingar.is) úr hrágögnum frá Franz Nistl (www.members.aon.at/fnistl/index.html)

Ef rauðvín sullast ofan í píanó eða flygla getur það valdið alls kyns veseni. Ber helst að nefna skemmda strengi, hamra og skemmdir í spilverki. Það getur verið mikið vesen að þrífa svona bletti þar sem það er frekar erfitt að komast að þeim í mörgum tilfellum.

Ekki geyma vínglös ofan á flyglum. Einhver mun einhvern tíma reka sig í.

 

Rauðvínsblettur í flygli (birt með leyfi eiganda)

 

20 milljón króna konsertflygil frá Steinway, Bösendorfer eða Fazioli. Það er augljóslega besti kosturinn.

Ef við gefum okkur hins vegar að peningar séu takmörkuð auðlind þá vandast málið.

Ef ætlunin er að kaupa hljóðfæri fyrir 1-2 milljónir króna myndu margir freistast til að kaupa flygil. Ég vil þó meina að í því tilviki geti verið skynsamlegra að kaupa stórt, upprétt píanó í hæsta gæðaflokki.

Ástæður fyrir því eru nokkrar:

  • Fyrir rúma milljón er hægt að kaupa verulega gott, stórt píanó af þekktri tegund
  • Fyrir rúma milljón er hægt að fá mjög ódýran og lítinn flygil af minna þekktri tegund.
Lítill flygill

Mjög lítill flygill (150cm)

Litlir flyglar hafa oft styttri bassastrengi en stór píanó. Styttri bassastrengir verða að vera sverari til að geta sveiflast með sömu tíðni og lengri bassastrengir. Sverari strengir hafa óhreinni tón en þeir grennri. Þar af leiðir að litlir flyglar geta oft haft lakari tóngæði en stór píanó.

Vissulega hafa flyglar það fram yfir píanó að spilverkið í þeim virkar öðruvísi. Það er alla jafnan betri svörun í flygilsspilverkum. Það eitt og sér dugar þó tæplega til að réttlæta kaup á litlum flygli umfram stórt og gott píanó.

Ef fjárheimildin er 1-2 milljónir er fólk í grundvallaratriðum að velja á milli þess dýrasta úr einum flokki (píanó) og þess ódýrasta úr öðrum flokki (flyglar). Inn í þetta spila svo gæði hinna fjölmörgu þátta sem hljóðfærið samanstendur af.

Hvað er lítill flygill lítill?

Það er auðvitað afstætt en flyglar undir 180 cm eru farnir að teljast mjög litlir. Persónulega finnst mér að flyglar þurfi að nálgast 2 metra til að verða virkilega spennandi. Slíkir flyglar eru þó yfirleitt í minni kantinum hvað tónleikahald varðar. Flyglar í tónleikasölum verða helst að vera vel yfir 2 metrar að lengd. Yfirleitt eru konsertflyglar yfir 270 cm á lengd og það er ekki upp á punt. Hver sentímeter skiptir máli upp á tóngæðin.

Það er hins vegar raunhæft að mæla með flyglum í kringum 180 cm fyrir heimili.

Hvað er stórt píanó stórt?

Stórt þýskt píanó (132cm)

Píanó telst vera fullvaxið í ca. 130 cm hæð. Líklega eru ekki framleidd píanó sem eru hærri en 132 cm.

Hafa ber í huga að í lengd flygla er dýptin á spilverkinu og nótunum innifalin. Strengjalengdin byrjar ekki að telja fyrr en vel inn fyrir fremri enda flygilsins. Hæð píanóa er mæld frá gólfi og upp á topp. Þar sem nótnaborðið telur ekki þegar hæð píanóa er annars vegar eru bassastrengirnir í píanóum í meira samræmi við heildarhæð hljóðfærisins heldur en heildarlengd flygla er í samræmi við bassastrengjalengd þeirra.

Að lokum verður hver að gera upp við sig hvað hann vill. Það er mjög misjafnt hvað fólk metur. Það er hins vegar nóg af valkostum og um að gera að meta þá vel áður en ráðist er í stórkaup.

Ég mæli einnig eindregið með því að fólk geri ráð fyrir stillingakostnaði þegar það velur hljóðfæri. Það er örugglega ekkert gaman að eiga dýrt hljóðfæri sem er rammfalskt.

Það er fróðlegt að hlusta á píanistana túlka byrjunina á fjórða píanókonsert Beethoven. Einnig er gaman að bera saman upptökurnar sjálfar sem spanna eflaust tæpa öld.

Síðasti píanistinn hefur aðeins aðra nálgun – hlustið.

Hér er fróðlegur og skemmtilegur fyrirlestur. Honor Harger segir hér frá því hvernig hægt er að hlusta á alheiminn og skilja hann út frá hljóði. Einnig er hægt að heyra „elsta hljóð í heimi“ þarna.

Sem píanóstillara finnst mér þetta skemmtilega nördalegt.

Að hlusta á tifstjörnu snúast er góð skemmtun – sér í lagi þegar maður hefur í huga að hún snýst um sjálfa sig með tvöfaldri sveiflutíðni góðrar ferundar eða svo!

Stjarneðlisfræðingum er góðfúslega boðið að leiðrétta allan kosmólógískan misskilning.

Þegar ég byrjaði í bransanum var það „almennt viðurkennt“ að píanó þyrfti að bíða á milli umferða ef það var mjög falskt.

Eða það hélt ég ca. fyrsta árið mitt í píanóstillingum.

Píanó sem voru vel fyrir neðan rétta tónhæð voru þá hækkuð upp í rétta spennu og einhverjir dagar látnir líða á meðan píanóinu var leyft að jafna sig áður en það var svo fínstillt.

Síðar meir kom í ljós að þessi bið er í raun óþarfi. Hægt er að stilla píanó 2-3 sinnum í sömu heimsókn og ná fínni og stabílli stillingu.

Eftir að hafa rætt við kollega bæði hérlendis og erlendis komst ég að því að stillarar væru almennt hættir að láta tíma líða á milli stillinga. Því hætti ég að skipta stillingum upp í margar heimsóknir og nú rúmum áratug síðar verður ekki annað sagt en að þetta hafi verið mýta. Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að hvíld á milli stillinga skipti máli í praktísku samhengi, þó hugsanlega megi færa rök fyrir þessu á báða bóga.

Niðurstaðan:

  • Ekki þarf að koma í tvö útköll þó píanó þurfi tvær eða jafnvel þrjár umferðir.
  • Ein heimsókn er auðvitað ódýrari en tvær heimsóknir
  • Tímasparnaður fyrir alla hlutaðeigandi
  • Píanóið heldur stillingu að öllu öðru óbreyttu

Hins vegar er rétt að geta þess að líklegt er að píanó sem fær árlega stillingu sé almennt stabílla en það sem er aðeins stillt með áratuga millibili.

 

© 2018 Píanóstillingar.is