Home · Blog · spes : A440? – Tónhæð sinfóníuhljómsveita eftir löndum

Ef hljóðfæri er stillt í tónhæðinni A440 merkir það að næsta A fyrir ofan mið-C hljómar í 440 sveiflum á sekúndu (riðum eða Hz). A440 er sá staðall sem miðað er við í heimahúsum þó önnur viðmið gildi oft í tónleikahúsum.

A er ekki bara A

A440 er viðmið sem síðar varð opinber ISO staðall fyrir tónhæð hljóðfæra. Önnur tónhæðarviðmið hafa áður verið notuð og í dag nota margar sinfóníuhljómsveitir hærri tónhæð en A440 (sjá töflu fyrir neðan).

Tónkvísl - A 440

 

Þróun tónhæðar

Það er reyndar mjög fróðlegt að lesa um þróun tónhæðar í gegnum aldirnar. Ljóst er að hún tók miklum breytingum fyrir nokkur hundruð árum hvort sem það var yfir tímabil, landamæri eða jafnvel innan einstakra borga.

Bent hefur verið á fyrirbrigði sem mér hefur tekist að þýða sem „tónhæðarbólgu“ (e. pitch inflation). Þar sem hljóðfæri hafa að jafnaði bjartari tón eftir því sem tónhæðin hækkar höfðu tónlistarmenn tilhneigingu til að hækka tónhæðina smám saman í gegnum árin. Þannig var viðmiðunartónkvísl Dresdenaróperunnar A423,2 árið 1815 en önnur tónkvísl sem var notuð rúmum áratug síðar við sama óperuhús hafði tónhæðina A435. Þessi þróun varð á endanum til þess að söngvarar kvörtuðu og strengir fóru að slitna.

Hér fyrir neðan hef ég unnið upplýsingar úr gögnum um tónhæð sinfóníuhljómsveita. Sinfóníuhljómsveit Íslands er reyndar ekki inni í þessum tölum, en hún notar A442.

Tónhæð sinfóníuhljómsveita eftir löndum

Vestur Evrópa

Tónhæð (miðgildi)

Austur Evrópa

Tónhæð (miðgildi)

Bandaríkin

Tónhæð (miðgildi)

Austurríki (23) 443 Bosnía (1) 442 Bandaríkin (12) 441
Belgía (2) 442 Búlgaría (2) 442
Sviss (7) 442 Tékkland (7) 443
Þýskaland (50) 443 Ungverjaland (3) 442
Danmörk (3) 442 Króatía (1) 443
Spánn (3) 443 Litháen (1) 444
Frakkland (6) 442 Lettland (1) 440
Bretland (11) 440 Pólland (2) 442.5
Ítalía (4) 442 Rúmenía (1) 442
Lúxembúrg (1) 442 Rússland (5) 443
Noregur (3) 442 Slóvenía (1) 442
Holland (1) 442
Svíþjóð (3) 443
Miðgildi 442 442 441
Tölur innan sviga eru fjöldi sinfóníuhljómsveita í úrtaki. Notast var við miðgildi tónhæðar í stað meðaltals til að sneiða hjá áhrifum útlaga, t.d. þar sem hljómsveitir sem sérhæfa sig í barokktónlist voru í úrtakinu. Fyrst var miðgildi einstakra landa tekið til að minnka úrtaksskekkju, en mikill munur var á fjölda hljómsveita úr hverju landi í heildarúrtaki. Tölfræðingum frjálst að gera athugasemdir :)Upplýsingar unnar af Kristni Leifssyni (www.pianostillingar.is) úr hrágögnum frá Franz Nistl (www.members.aon.at/fnistl/index.html)

© 2018 Píanóstillingar.is