Hér er svolítið sérstök hamarlína í píanói. Venjulega eru hamrarnir beinir hægra megin í dískantinum (efri hlutanum), en í píanóum frá Finger (austur-þýsk) eru hamrarnir og strengirnir í svona sveig. Þetta er líklega ágætt dæmi um málamiðlanir sem þarf stundum að gera í hönnun hljóðfæra.

„La persistencia de la memoria“ eftir Salvador Dalí

„Hvenær á ég að láta stilla píanóið næst?“ er líklega algengasta spurningin sem stillari fær.

Það er reyndar mjög misjafnt hversu ört þarf að stilla píanó.

Yfirleitt er talað um að láta stilla píanó einu sinni á ári. Þá tölu má án efa rekja til þess að á einu ári gengur hljóðfærið í gegnum öll árstíðaskiptin og þær hita- og rakabreytingar sem fylgja þeim.

Við breytingar á hita- og rakastigi þenst viðurinn í hljóðfærinu út og skreppur saman á víxl. Þetta veldur spennubreytingum á strengjunum og hressilegar breytingar geta bókstaflega þurrkað út stillinguna á píanóinu.


Hér eru ýmis atriði sem þarf að meta þegar spurningunni er svarað:

  • Ef píanóið er nýtt (ca. 4 ára eða yngra) þarf að stilla örar þar sem strengirnir eru ennþá að togna. Setningar eins og „En þetta er flunkunýtt“ og „En er þetta ekki stillt í verksmiðjunni?“ eiga ekki við í þessu tilviki, því þetta er eðlilegt ferli.
  • Ef píanóið er notað í námi þarf að stilla oftar. Það er aðallega vegna þess að kröfurnar eru meiri en ella. Hins vegar fer hljóðfærið fyrr úr stillingu ef það er mikið notað (sem gefur reyndar til kynna að það sé vel þess virði að styðja vel við nemandann og láta stilla oft)
  • Ef hljóðfærið er notað til tónleikahalds þarf að stilla fyrir hverja tónleika ef vel á að vera. Fólki gæti þótt svo örar stillingar of mikið en raunin er sú að á tónleikum getur stillingin breyst nógu mikið til að hljóðfærið þurfi að stilla aftur. Það er þó auðvitað matsatriði í hvert skipti.
  • Það þarf að sjálfsögðu ekki að nefna það að öll píanó á að stilla fyrir upptökur. Ótal dæmi eru um upptökur sem líða fyrir það flygillinn er falskur og upptökurnar lifa áfram.
  • Ef píanó stendur á stað þar sem það er útsett fyrir breytingum á hitastigi þarf að stilla örar.

Hægt að halda því fram að það sé betra fyrir píanóið að vera stillt ört. Ef langur tími líður er hætt við að spennan á strengjunum sé orðin mjög lág og að spennubreytingin verði mikil þegar loksins kemur að stillingu.

Hins vegar er varla hægt að segja að hljóðfærið sé í stórhættu ef örfá ár líða á milli píanóstillinga. Þegar tíminn fer að verða mældur í áratugum getur það þó farið að verða alvarlegra mál.

Góð regla er því að láta ekki mjög langan tíma líða á milli stillinga. Ég mæli með því að láta stilla einu sinni á ári. Ef það þykir of ört ætti ekki að láta líða lengra en 2 ár á milli stillinga, sé píanóið í einhverri notkun.

Smá leiðbeinandi samantekt í lokin:

  • Píanó sjaldan notað: Ekki láta líða meira en 3-5 ár á milli stillinga, bara til að tryggja lágmarksviðhald.
  • Píanó notað reglulega: Stilla a.m.k. annað hvert ár
  • Píanó notað í námi: Stilla einu sinni á ári
  • Píanó notað í tónleikastarf: Stilla helst fyrir hverja tónleika
  • Píanó notað í upptökur: Stilla fyrir hverja upptöku, án undantekningar, jafnvel með píanóstillarann í kallfæri.

 

Stærsti flygill sem framleiddur er í heiminum heitir Fazioli F308 og er 308 cm langur. Það umtalsvert lengra en Steinway D (274 cm) og einnig lengra en Bösendorfer Imperial (290 cm).

Svona stór flygill þarf stórt lok og á þessari mynd sést að það eru 3 stangir sem halda lokinu uppi. Reyndar hefur stöngunum verið fækkað í eina á síðustu árum.

Stærsti flygill í heimi

Hér náðist þessi flygill á myndband

Takið eftir hvað litla vatnsskálin er pínulítil undir flyglinum. Hún á að halda viðunandi rakastigi en í sannleika sagt er þetta ekki mjög áhrifarík leið í svona stóru rými 😀

Svona flygill kostar sitt (rúmar 20 milljónir), en er auðvitað mun betri fjárfesting en Range Rover Sport.

Kaupa Fazioli F308

Hér er svo stærsti „flygill“ í heimi, en hann er meira svona Frankensteinfyrirbrigði.

 


Hvorug hlið þessa útveggjar er heppileg fyrir píanó

Ég fæ mjög gjarnan spurningar um útveggi frá fólki. Margir hafa áhyggjur af því að píanó sé í nokkurri hættu ef það stendur við slíkan vegg.

Ef útveggur er vel einangraður er ekkert því til fyrirstöðu að píanó standi við hann. Sé viðkomandi hús ekki mjög gamalt er þetta yfirleitt ekki mikið vandamál. Það er helst í elstu hverfum landsins þar sem fólk ætti að hugsa sig tvisvar um varðandi þetta.

Útveggjum fylgja gjarnan umhverfisþættir sem vert er að athuga. Best er að píanó séu ekki mjög nálægt opnanlegum gluggum, svaladyrum eða stórum rúðum. Fyrir neðan glugga má oft finna heita ofna, en þeir eru sérstaklega slæmir fyrir hljóðfæri. Af þessum sökum þarf að skoða umhverfið vel, en útveggir eru ekki vandamál í sjálfu sér.

Það er því, í grófum dráttum, í lagi að hafa píanó við útvegg sé þess gætt að píanóið standi réttu megin við útvegginn!

 

Þetta er verulega yndislegt!

Ekki aðeins er flutningur Noru óaðfinnanlegur heldur er flygillinn nýstilltur, að því er virðist.

Hér hefur tónskáldið Mindaugas Piecaitis tekið sólóperformansinn og samið hljómsveitarpart utanum.

 

Fullkomið tóneyraÉg hef verið spurður að því hvort ég sé með „absolút-heyrn“ eða „fullkomið tóneyra“ og hvort það hjálpi ekki við píanóstillingar

Svarið er tvöfalt nei, í rauninni. Ég er ekki með „fullkomið tóneyra“ og eftir því sem ég kemst næst er frekar hæpið að hið svokallaða „fullkomna tóneyra“ hjálpi mjög mikið við píanóstillingar, ef nokkuð yfirleitt.

Hið fullkomna tóneyra sem oft er rætt um er nefnilega ekki nægjanlegt eitt og sér þegar kemur að píanóstillingu.

Lítum aðeins nánar á þetta.

Hvað er fullkomið tóneyra?

Þegar fólk er með absolút heyrn getur það sagt til um hvort tiltekin nóta sé A eða Fís, sem dæmi. Ég þekki tónlistarmann sem getur greint marga tóna samtímis. Það er eiginlega merkilegt að heyra hann lýsa þessu. Það er líka fyndið að einhver geti sagt manni að ísskápur hljómi sem G.

En getan til að heyra tón og segja að hann sé „A“ gagnast lítið þegar hljóðfæri er stillt.

A er nefnilega ekki bara A. Það eru til (óendanlega) mörg Ö (A í fleirtölu = Ö 🙂 )

A440 er mjög ólíkt A442 og í rauninni vinna píanóstillarar með mun fínlegri blæbrigði. Breytingarnar sem við gerum mælast í brotum af prósentum af hálftóni.

Það er enginn möguleiki fyrir manneskju að benda á A og segja: „þetta A er 440,5 Hz“. Það er heldur enginn möguleiki að nota „fullkomna tónheyrn“ til að stilla þríundir (sem eru gríðarlega viðkvæm tónbil og breytast mjög mikið við allra minnstu breytingar).

Píanóstillarar eru þjálfaðir til að heyra mjög litlar breytingar á afstæðan hátt. Við notumst við það sem gæti kallast „afstætt tóneyra“ (e. relative pitch) þar sem hljóðsveiflur sem tveir tónar mynda í sameiningu eru bornar saman í stað „fullkomins tóneyra“ sem gerir fólki kleift að greina einstakar nótur án ytra viðmiðs.

Hér er að finna mjög góða grein á ensku um „fullkomna tónheyrn“

 

Tónkvísl

Eftir ítarleg viðtöl við skjólstæðinga mína hef ég komist að raun um að langvarandi felskja hljóðfæra (ef frá er talin náttúrleg raddfelskja) stafar gjarnan af fullkomnum samdaun viðkomandi við sitt tónlistarlega nærhljóðumhverfi (e. Immediate Aural Environment). Einstaklingur sem að jafnaði spilar á falskt hljóðfæri hættir að gera greinarmun á því hvað er rétt eða rangt, einkum m.t.t. hljóms.²

Afleiðingar langvarandi felskju geta verið margvíslegar og ber að nefna eftirfarandi:

  • Aukinn kostnaður við píanóstillingar þegar þær eru loks framkvæmdar
  • Aukin hætta á strengjasliti vegna mikillar spennuaukningar á strengjum
  • Ónóg þjálfun söngvara á hæstu nótum þar eð tónhæð hljóðfærisins er óæskilega lág
  • Almenn vonbrigði gesta í teiti (ath. ástand hljóðfæris getur orðið að aukaatriði þegar líður á kvöldið, skv. vitnisburði ótal viðmælenda)

Í kjölfar píanóstillingar

Viðbúið er að snörp umskipti í kjölfar stillingar veki sterk viðbrögð hjá viðkomandi. Hins vegar er erfitt að spá fyrir um raunverulegt eðli þeirra viðbragða, sér í lagi ef felskjan hefur varað áratugum saman.

Sé viðkomandi enn viðbjargandi getur stillingunni fylgt nokkuð taumlítil hamingja, enda gera flestir sér þá þegar grein fyrir því hversu mjög þeir hafi vaðið hljóðvilluna áður. Á hinn bóginn er mögulegt að viðkomandi sé í mikilli afneitun. Til eru dæmi um píanóeigendur sem fara fram á endurfelskjun³ nýstillts hljóðfæris sökum þeirrar streitu sem umskiptin valda, en nýstillt píanó hljómar gjarnan eins og allt annað hljóðfæri en viðkomandi telur sig hafa átt áratugum saman.

¹Andersson, K., Zwicky, L (1977) . Coping with out-of-tuneness – Societal implications of the unwillingness to have a tuning performed on one’s piano. Journal of Instrumental Psychology, 24, 233-234 *

²Celesjni, R, Braggadoccio, E., Walker, T.R., (1999) Out of tune? Common misconceptions about inharmonicity. Paris, TX, USA: Anderson & Smith *

³Tuner, E.O. (1997) “I’ll de-tune it if you promise not to say who your tuner is” – Autobiography of a disgruntled tuner/technician.Centralia, WA: Kant, Heidegger & Socrates *

*þessar heimildir eru algjört bull, sko.

 

Suð í píanóum er eitthvert það mest óþolandi vandamál sem píanóstillari getur þurft að fást við.

Í grófum dráttum má flokka suð í tvennt

  1. Suð innan píanós
  2. Suð utan píanós

Suð innan píanós

Andrew Davidhazy

Í píanóum eru ógurlega margir hlutir sem geta víbrað, suðað eða ískrað. Strengir geta suðað á þónokkrum stöðum.

Á skemmtistöðum er ekki óalgengt að finna uppþornað vodka í kók á bassastrengjum. Sýran í kókinu getur étið upp koparvafninginn í bassastrengjunum og koparinn víbrað utan á stálinu.

Stundum suðar í hljómbotninum á píanói ef rif aftan á honum eru laus og svo geta píanólokin að sjálfsögðu víbrað.

Einu sinni leitaði ég heillengi að suði í Steinway flygli og komst að því eftir dúk og disk að það kom frá lyklinum í lásnum.

Suð utan píanós

Þetta er skemmtilegasta suðið því orsakirnar geta verið svo fáránlegar að þær gleymast seint. Það er nokkuð algengt að myndarammar ofan á píanóum víbri. Það er voða týpískt og svosem ekki í frásögur færandi.

Einu sinni fór ég í píanóstillingu. Mér fannst hljóðfærið standa frekar langt frá veggnum en ekki nóg til að gera athugasemd við það.

Viðkomandi kvartaði yfir því að mið C væri eitthvað skrítið. Ég stillti píanóið en fann ekkert voðalega athugavert við þá nótu. Svo kvaddi ég með virktum og hélt heim á leið. Allir voða ánægðir. Hálftíma síðar fékk ég upphringingu um að eitthvað væri í ólagi.

Ég skrapp með föður mínum á staðinn til að græja þetta mál og, jújú, tók eftir því að píanóið var núna komið alveg upp að veggnum og nú suðaði alveg óskaplega í mið C. Viðkomandi hafði sumsé dregið píanóið aðeins frá veggnum áður en ég kom og fært það aftur nær honum eftir að ég fór.

Ég þarf að lýsa þessu aðeins:

Stofan var notuð sem nuddstofa. Það var s.s. nuddbekkur á staðnum og manneskja í nuddi. Kósí.

Þarna var glerskápur – þá meina ég skápur sem var næstum bókstaflega úr gleri á alla kanta, fullur af litlum glerstyttum. Ef ég væri víbringur, þá myndi ég vilja búa þar.

Ennfremur var þarna að finna dýrindisskenk með ca. 40 áskrúfuðum látúnsstykkjum sem öll voru fyrirtakskandídatar til víbrings og leiðinda.

Við faðir minn vorum heilt korter að finna upptök suðsins. Ekki var það í píanóinu. Ekki í glermublunni góðu né heldur í látúnsskrautinu.

Þetta fór þannig fram að pabbi spilaði og spilaði nótuna, linnulítið í heila eilífð, en ég reyndi að finna víbringinn með HEITUR/KALDUR aðferðinni. Ég tek það fram að ég hef gríðarlega reynslu í þessu, en þetta var alveg einstaklega erfitt tilvik.

Að lokum lá ég undir skáp. Loksins fann ég suðið! Ég opnaði næstefstu skúffuna, tók allt úr henni og setti það einhvern veginn aftur í hana.

Suðið horfið.

Þarna hafði semsagt einhver tiltekinn hlutur legið á einhvern tiltekinn hátt. Hann víbraði bara á einni nótu og aðeins þegar píanóið stóð uppi við vegginn, hinu megin í stofunni.

En þetta leystist farsællega og þetta píanó er eflaust í fullu fjöri. Vonandi hafði þetta ekki teljandi áhrif á manneskjuna sem hafði í sakleysi sínu pantað nuddtíma en þurfti að hlusta á tvo píanóstillara berja sömu nótuna aftur og aftur.

 

Fyrsta skrefið í píanóstillingu er að mæla tónhæð hljóðfærisins með tónkvísl. Ég nota tónkvísl með tíðninni A440. Hún víbrar s.s. 440 sinnum á sekúndu og gefur frá sér „réttan tón“. Ef mið-A (a’) er t.d. A438 á píanóinu heyrist munurinn sem tvær sveiflur á sekúndu, eða mismunurinn á 440 og 438.

Að stilla „temperament“

Þegar A440 hefur verið stillt rétt á píanóinu er komið að því að leggja grunninn að stillingunni. Í miðjunni á píanóinu er búin til eins konar smækkuð útgáfa af allri píanóstillingunni. Tólf nótur, frá f upp á f’, eru stilltar eftir mjög skýru og afmörkuðu ferli.

Ferundir eru „útvíkkaðar“ um tvö cent, eða 2% úr hálftóni. Fimmundir eru hins vegar samandregnar um tvö cent. Þríundir og sexundir eru útvíkkaðar.

Hin fullkomna píanóstilling

Þegar temperamentið er tilbúið:

  • eiga ferundir að hafa í sér sveiflu sem er um 3 sveiflur á 5 sekúndum.
  • eiga fimmundir að sveiflast um 2 sinnum 5 sekúndum
  • eiga þríundir að vera hraðari og hraðari eftir því sem ofar dregur, frá ca. 7 riðum upp í 11-12 rið innan temperamentsins.
  • eiga sexundir að vera hraðari og hraðari eftir því sem ofar dregur
  • eiga ákveðnar þríundir að vera jafnhraðar og ákveðnar sexundir, en það sýnir fram á ákveðið jafnvægi innan stillingarinnar
  • á áttundin f-f’ að vera því sem næst hrein, eða smávægilega útvíkkuð, en alls ekki samandregin.

Þetta er sem sagt niðurstaðan í fullkomnum heimi. Í raunverulegri stillingu þarf alltaf að gera ákveðnar málamiðlanir og þá þarf oft mikla útsjónarsemi til að stillingin fari ekki algjörlega í vaskinn.

Næmni tónbila þegar verið er að stilla píanó

Þegar ég hef farið í gegnum temperament einu sinni þarf yfirleitt að endurskoða ýmis tónbil. Það getur verið að einhver þríundin sé of hröð eða of hæg. Stundum eru fimmundir of hraðar og hljóma því óhreint. Það er í raun ótalmargt sem þarf að skoða og vandamálið, eða úrlausnarefnið, er að ein lítil breyting á einum streng hefur áhrif í gegnum allt temperamentið (og alla stillinguna á mun stærri skala ef út í það er farið).

Hér eru tónbilin sem ég miða við í röð eftir „viðkvæmni“. Þríundir eru næmastar (breytast drastískt við litla spennubreytingu) en áttundir þola mun meira.

  • Þríundir (og sexundir)
  • Fimmundir
  • Ferundir
  • Áttundir

Ef maður rekur sig á þríund sem er of hröð, er eðlilegasta skrefið að athuga hvort aðliggjandi ferund eða fimmund leyfi ekki breytingar til að þríundin geti orðið réttari. Oftast er það raunin, enda er hægt að breyta þríund þónokkuð án þess að það heyrist mikið á ferundinni eða fimmundinni sem tekur þá óhjákvæmilega einhverjum breytingum í kjölfarið. Þetta á við um fleiri tónbil og sýnir ágætlega hversu mikil málamiðlun píanóstilling er í eðli sínu.

 

© 2018 Píanóstillingar.is